Fánasmiðjan risin upp úr brunarústunum

skrifað 13. jan 2013
byrjar 18. jan 2013
 
Opnun 1

– allt endurnýjað og opnað að nýju 26. janúar með fullkomnum tækjabúnaði

Örn við ljósmyndaprentarann Örn við ljósmyndaprentarann

Fánasmiðjan á Ísafirði er búin að ganga í gegnum algjöra endurnýjun eftir brunatjónið sem fyrirtækið varð fyrir á síðastliðnu sumri. Þá var brotist inn í húsnæði fyrirtækisins á annarri hæð í gamla Norðurtangahúsinu og kveikt í. Nær öll tæki, lager og búnaður félagsins skemmdist. Þó slapp silkiprentvélin sem notuð er til að prenta fyrirtækjafána. „Við náðum að koma silkiprentvélinni mjög fljótlega í gang aftur og héldum þannig starfseminni áfram, ásamt því að semja við góðviljaða aðila sem tóku að sér að prenta fána fyrir okkur í þessum erfiðleikum. Þannig gátum við haldið áfram að þjónusta viðskiptavini okkar,“ segir Örn Smári Gíslason framkvæmdastjóri. Nýi fánaprentarinn Nýi fánaprentarinn

-- Stórhugur í mönnum --

„Það var fljótlega ákveðið að byggja fyrirtækið upp aftur, þó að blikur væru á lofti með vitneskju um það að brennuvargur gengi laus í bænum og gæti tekið aftur upp á slíku. Slíkt hefði félagið ekki þolað, nóg þurfti að leggja undir til að endurbyggja félagið aftur. Þó að tryggingarnar hafi bætt hluta tjónsins var rekstrartap félagsins ekki bætt en aðalvertíðin er á sumrin og kom þetta því fyrir á versta tíma.“

-- Allt endurnýjað --

Fánasmiðjan flutti til bráðabirgða á 1. hæð í sama húsi sem slapp við brunatjón. Var þjónustunni haldið áfram eins og hægt var, en á sama tíma var farið í það að hreinsa út brunarústirnar. „Hæðin var eins og fokheld eftir að búið var að hreinsa út. Skipuleggja þurfti allt upp á nýtt, innrétta hæðina, skipta um allar raflagnir, byggja upp nýja milliveggi, loftaefni og lagfæra gólf og fleira. Þá voru sett upp fullkomin bruna- og þjófavarnarkerfi í húsið til að koma í veg fyrir annað tjón af þessum toga. Þá þurfti að fjárfesta í nýjum tækjum og var ákveðið að kaupa nýjustu og fullkomnustu tækin sem völ var á til að auka gæðin og afköstin. Einnig til að koma með nýja möguleika í prentun. Fyrir valinu urðu prentarar og skurðarplotterar frá japanska fyrirtækinu Mimaki, sem er einna umsvifamest á markaðnum núna. Búið er að tilkeyra tækin nokkuð vel og hafa þau reynst vonum framar þannig að menn horfa björtum augum á framtíðina.“ Örn Smári segir að starfsemin verði formlega opnuð að nýju laugardaginn 26. janúar kl. 13.00 í Norðurtangahúsinu. Er öllum velkomið að líta inn og sjá hvað búið er að gera, og forvitnast um það sem er nýtt á prjónunum. Heitt verður á könnunni og opið fyrir gesti til kl.17.00.

--Fánar, fánastangir og merkingar --

Fánaframleiðsla verður áfram aðall félagsins og verður lögð enn ríkari áhersla á að vera með allt sem tengist fánum, svo sem fánastangir af ýmsum gerðum. Samfara þessu verður haldið áfram með margs konar merkingar á fatnaði, bílum og öðrum hlutum. Nýju prentararnir bjóða upp á fulkomnar prentanir á striga, bílafilmur og ljósmyndapappír. Er nú hægt að prenta myndir í allt að 160 cm breidd og í nær ótakmarkaða lengd. Verið er að vinna að gerð nýrrar heimasíðu fyrir félagið og þar verða upplýsingar um framleiðsluvörur félagsins ásamt sölusíðu. Örn Smári segir að landið allt sé þeirra markaðssvæði og því sé nauðsynlegt að hafa góða tengingu við þann markað í gegnum netið.